Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, knattspyrnukona frá Selfossi, er gengin til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro og hefur samið við það til tveggja ára.
Örebro skýrði frá þessu í dag en Áslaug er tvítugur varnarmaður sem hefur leikið með meistaraflokki Selfoss frá fimmtán ára aldri. Hún á að baki 86 leiki með liðinu í efstu deild og hefur skorað þrjú mörk.
Áslaug lék alla fjóra leiki 23-ára landsliðs Íslands á þessu ári og hefur spilað einn A-landsleik, auk 24 leikja með yngri landsliðum Íslands.
Hún er annar Íslendingurinn í núverandi leikmannahópi Örebro sem fékk til sín Bergþóru Sól Ásmundsdóttur frá Breiðabliki í byrjun september.