Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, hefur rætt við forráðamenn sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping um að taka við þjálfun liðsins.
Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is og Morgunblaðið.
Arnar, sem er fimmtugur, ræddi við forráðamenn sænska félagsins í síðustu viku en hann hefur stýrt Víkingum frá árinu 2018.
Hann hefur gert liðið tvívegis að Íslandsmeisturum og fjórum sinnum að bikarmeisturum frá því hann tók við stjórnartaumunum í Fossvoginum en hann gerði að liðið að tvöföldum meisturum á nýliðnu keppnistímabili sem og árið 2021.
Arnar hefur hins vegar ekki heyrt neitt í forráðamönnum sænska félagsins síðan hann átti fjarfund með þeim í síðustu viku.
Norrköping er í leit að framtíðarþjálfara en liðið hafnaði í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Andri Lucas Guðjohnsen, Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson eru allir samningsbundnir sænska félaginu.