Sandra María Jessen, landsliðskona Íslands í knattspyrnu, ætlar að taka ákvörðun um næstu skref á ferlinum á allra næstu dögum.
Þetta tilkynnti hún í samtali við fótbolta.net en Sandra María, sem er 28 ára gömul, er samningslaus þessa dagana.
Hún er með samningstilboð frá Íslandsmeisturum Vals og þá hafa fleiri lið hér á landi boðið henni samning en hún útilokar þó að spila erlendis á næstu leiktíð.
„Það var allt í boði en eins og staðan er núna er best fyrir fjölskylduna mína að vera á Íslandi,“ sagði Sandra María í samtali við fótbolta.net í Cardiff þar sem landsliðið undirbýr sig nú fyrir mikilvægan leik gegn Wales í 3. riðli Þjóðadeildar kvenna.
„Við munum því enda á Íslandi eins og staðan er núna en það er ennþá opið hvort það verði á höfuðborgarsvæðinu eða fyrir norðan. Það er ekki hægt að segja neitt eins mikið og mig langar til þess.
Ég er sjálf ekki búin að taka ákvörðun en það kemur á næstu dögum og sennilega á meðan landsliðsverkefninu stendur,“ bætti Sandra María við í samtali við fótbolta.net.