Valur hefur samþykkt tilboð norska félagsins Haugesund í knattspyrnumanninn Hlyn Frey Karlsson.
Fótbolti.net greinir frá.
Hlynur Freyr er 19 ára gamall, fjölhæfur leikmaður sem getur leyst stöðu miðvarðar, varnartengiliðs og hægri bakvarðar.
Hann var í lykilhutverki hjá Val í ár, á sínu fyrsta tímabili hjá liðinu eftir að hafa komið frá Bologna, þegar liðið hafnaði í öðru sæti Bestu deildarinnar.
Sömuleiðis var Hlynur Freyr lykilmaður í liði U19-ára landsliðs Íslands á EM 2023 á Möltu í sumar og er farinn að gera sig gildandi í U21-árs landsliðinu.
Óskar Hrafn Þorvaldsson tekur við stjórnartaumunum hjá Haugesund að loknu yfirstandandi tímabili og má því vænta þess að fyrstu kaup hans verði íslenskur leikmaður.