Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, er bjartsýnn á að liðið vinni sér inn sitt fyrsta eða fyrstu stig þegar ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv kemur í heimsókn í Sambandsdeild Evrópu á morgun.
„Við förum í alla þessa leiki til þess að reyna að gera eitthvað, reyna að ná úrslitum. Við getum fært rök fyrir því að við höfum verið nálægt því í öllum leikjum nema úti í Belgíu.
Við förum brattir inn í þennan leik og ætlum okkur að reyna að ná í góð úrslit,“ sagði Halldór á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.
Leikurinn var færður á Kópavogsvöll, sem forsvarsmenn Maccabi eru ósáttir við; bæði við að þar sé gervigras og breyttan leiktíma, en leikurinn hefst klukkan 13.
Spurður hvort hann telji að Blikar geti nýtt sér gervigrasið í leiknum á morgun sagði Halldór:
„Okkur líður vel hérna, á heimavelli og á sléttum velli. Við erum reyndar búnir að eyða síðustu vikum í að undirbúa okkur fyrir leik á frosnum grasvelli.
Auðvitað er það eitthvað sem á að geta hjálpað okkur en ég held að þetta hjálpi leiknum í heild sinni. Þeir eru líka með gott fótboltalið.
Þó að þeir hafi verið ósáttir þá held ég að það henti þeim líka betur að spila á gervigrasi heldur en á Laugardalsvelli eins og hann er í lok nóvember.“