Keane: Ég get ekki spilað!

Robbie Keane er leikja- og markahæstur í sögu írska landsliðsins …
Robbie Keane er leikja- og markahæstur í sögu írska landsliðsins í knattspyrnu. AFP

Ísraelska knattspyrnuliðið Maccabi Tel Aviv hefur ekkert leikið í deildinni heima fyrir, einungis í Sambandsdeild Evrópu, að undanförnu vegna átakanna í Ísrael og Palestínu.

Liðið heimsækir Breiðablik á Kópavogsvöll í keppninni á morgun áður en deildin fer aftur af stað um helgina á meðan vopnahléi stendur.

„Ég er ánægður með form leikmanna. Þess vegna erum við með hóp af leikmönnum. Við munum sannarlega þurfa á öllum að halda frá deginum í dag til sunnudags.

Ég vil ekki styðjast við afsakanir. Við lítum til þess að við erum með góðan hóp leikmanna sem við munum þurfa á að halda,“ sagði Robbie Keane, knattspyrnustjóri Maccabi, á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.

Er Keane var spurður hvort einhver meiðsli herjuðu á leikmenn liðsins sló hann á létta strengi:

„Ég get ekki spilað! Nei, það eru engin meiðsli.“

Keane var sjálfur afar öflugur sóknarmaður sem lék um langt árabil í ensku úrvalsdeildinni og er leikja- og markahæsti leikmaður írska landsliðsins í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert