Robbie Keane, knattspyrnustjóri ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv, kveðst eiga von á hörkuleik gegn Breiðabliki í B-riðli Sambandsdeildar Evrópu á Kópavogsvelli á morgun.
„Já, auðvitað. Við skoðum styrkleika hvers einasta liðs sem við spilum við. Þeir eru með gott lið.
Ég veit að staðan í deildinni gefur það kannski ekki til kynna en hvernig þeir spila, sérstaklega þegar þeir snúa vörn í sókn, þeir eru mjög góðir í því,“ sagði Keane á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.
Þar var hann spurður hvort Maccabi þyrfti að gefa einhverju í leik Breiðabliks sérstakan gaum.
Fyrri leik liðanna í Tel Aviv lauk með 3:2-sigri heimamanna.
„Við erum að fara að spila aftur á móti mjög sterku liði. Við komumst í 3:0 í fyrri leiknum og þeir minnkuðu svo muninn, þannig að þeir láta ekki vaða yfir sig.
Þetta er gott lið sem býr yfir miklum gæðum. Ég veit að þeir skiptu um stjóra í síðasta mánuði en ég býst við þeim svipuðum og síðast. Við búumst við toppleik frá þeim,“ sagði Keane.
„Þeir voru svo sannarlega þolinmóðir í fyrri leiknum, sem olli okkur vandræðum. Við höfum lært af því. Við vitum hverjir styrkleikar þeirra eru og hvar veikleikar þeirra liggja.
Við erum með leikplan sem við munum reyna að innleiða á morgun en leikmennirnir vita það sannarlega að leikurinn heima var erfiður.
Við vorum 3:0 yfir og áttum ekki að koma okkur í þær aðstæður sem við gerðum, en við höfum vonandi lært af því og gerum vonandi engin mistök á morgun,“ bætti hann við.