Forsvarsmenn ísraelska knattspyrnufélagsins Maccabi Tel Aviv eru ósáttir við ákvörðun knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, um að færa leik liðsins gegn Breiðabliki í B-riðli Sambandsdeildar Evrópu af Laugardalsvelli yfir á Kópavogsvöll.
Í gær tilkynnti UEFA að ákveðið hafi verið að færa leikinn vegna vallaraðstæðna á Laugardalsvelli.
Samkvæmt heimildum mbl.is vill Maccabi ekki spila á gervigrasi og hyggst leggja fram formlega kvörtun til UEFA þess efnis.
Leikurinn átti upphaflega að fara fram klukkan 20 á Laugardalsvelli annað kvöld en fer þess í stað fram klukkan 13 á Kópavogsvelli sama dag.
Maccabi er sömuleiðis ósátt við að leiknum hafi verið flýtt, sem kom til vegna birtuskilyrða hér á landi, enda algengara að leikjum sé seinkað eða frestað.
Flóðljósin á Kópavogsvelli standast ekki ýtrustu kröfur UEFA og þarf því að spila þegar náttúruleg birta er sem mest.