Gísli Eyjólfsson skoraði mark Breiðabliks þegar liðið tók á móti Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í B-riðli Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í síðasta heimaleik liðsins í riðlakeppninni á Kópavogsvelli í dag.
Leiknum lauk með sigri Maccabi Tel Aviv, 2:1, en Gísli skoraði jöfnunarmark Blika á 60. mínútu.
Breiðablik er áfram án stiga í neðsta sæti riðilsins en Maccabi Tel Aviv er í efsta sætinu með 12 stig, tveimur stigum meira en Gent sem mætir Zorya Luhansk í Belgíu i kvöld. Maccabi tryggði sér endanlega sæti í útsláttarkeppninni með sigrinum í dag.
Blikar byrjuðu leikinn betur og Viktor Karl Einarsson komst í ágætis skotfæri í vítateig Maccabi Tel Aviv á 2. mínútu en hann hitti boltann illa og hann fór framhjá markinu.
Sjö mínútum síðar átti Gísli Eyjólfsson frábæran sprett upp vinstri kantinn og hann lagði boltann svo út á Kristinn Steindórsson sem var nánast einn fyrir opnu marki en skot hans fór framhjá.
Gísli Eyjólfsson fór illa með varnarmenn Maccabi Tel Aviv á 14. mínútu og kom sér í gott skotfæri, rétt utan teigs, en hann hitti boltann skelfilega og skotið fór framhjá.
Dan Biton kom svo Maccabi Tel Aviv yfir á 35. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Breiðabliks.
Anton Logi Lúðvíksson tapaði boltanum á slæmum stað en Viktor Örn Margeirsson vann boltann aftur áður en hann tapaði honum svo. Boltinn datt svo fyrir fætur Biton sem lét vaða á markið, rétt utan teigs.
Boltinn fór beint á markið en sólin virtist blinda Anton Ara Einarsson í markinu og boltinn söng í netinu.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik eftir mark ísraelska liðsins og Maccabi Tel Aviv leiddi því með einu marki gegn engu í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn fór fjörlega af stað og strax á 56. mínútu fengu Ísraelarnir hornspyrnu. Boltinn fór yfir allan pakkann og beint fyrir fætur Dor Peretz sem stýrði honum í markið.
Markið var hins vegar dæmt af eftir að VAR-athugun þar sem boltinn fór í höndina á Peretz í aðdraganda marksins.
Fjórum mínútum síðar dró til tíðinda þegar Gísli Eyjólfsson reyndi að fara í þríhyrningsspil við Kristinn Steindórsson í vítateig Maccabi Tel Aviv.
Boltinn barst aftur til Gísla, sem gerði mjög vel í að halda hlaupinu áfram inn í teiginn, og hann plataði Orlando Mosquera í marki Ísraelanna upp úr skónum, áður en hann lagði boltann í tómt markið og staðan orðin 1:1.
Blikar voru mun aðgangsharðari eftir þetta og Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson áttu báðir hörkuskot að marki Maccabi Tel Aviv sem fóru bæði rétt yfir markið.
Eran Zahavi kom Maccabi Tel Aviv svo yfir á nýjan leik á 82. mínútu þegar boltinn barst til hans, fyrir utan vítateig Blika. Hann lét vaða á markið og boltinn fór yfir Anton Ara sem hefði mögulega átt að geta betur í markinu og staðan orðin 2:1.
Bæði lið fengu færi til þess að bæta við mörkum á lokamínútum leiksins en inn vildi boltinn ekki og lokatölur því 2:1, Maccabi Tel Aviv, í vil.