Blikar klaufar í síðasta heimaleiknum

Gísli Eyjólfsson skoraði mark Breiðabliks þegar liðið tók á móti Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í B-riðli Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í síðasta heimaleik liðsins í riðlakeppninni á Kópavogsvelli í dag.

Leiknum lauk með sigri Maccabi Tel Aviv, 2:1, en Gísli skoraði jöfnunarmark Blika á 60. mínútu.

Breiðablik er áfram án stiga í neðsta sæti riðilsins en Maccabi Tel Aviv er í efsta sætinu með 12 stig, tveimur stigum meira en Gent sem mætir Zorya Luhansk í Belgíu i kvöld. Maccabi tryggði sér endanlega sæti í útsláttarkeppninni með sigrinum í dag.

Blikar byrjuðu leikinn betur og Viktor Karl Einarsson komst í ágætis skotfæri í vítateig Maccabi Tel Aviv á 2. mínútu en hann hitti boltann illa og hann fór framhjá markinu.

Sjö mínútum síðar átti Gísli Eyjólfsson frábæran sprett upp vinstri kantinn og hann lagði boltann svo út á Kristinn Steindórsson sem var nánast einn fyrir opnu marki en skot hans fór framhjá.

Vandræðagangur í vörn Blika

Gísli Eyjólfsson fór illa með varnarmenn Maccabi Tel Aviv á 14. mínútu og kom sér í gott skotfæri, rétt utan teigs, en hann hitti boltann skelfilega og skotið fór framhjá.

Dan Biton kom svo Maccabi Tel Aviv yfir á 35. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Breiðabliks.

Anton Logi Lúðvíksson tapaði boltanum á slæmum stað en Viktor Örn Margeirsson vann boltann aftur áður en hann tapaði honum svo. Boltinn datt svo fyrir fætur Biton sem lét vaða á markið, rétt utan teigs.

Boltinn fór beint á markið en sólin virtist blinda Anton Ara Einarsson í markinu og boltinn söng í netinu.

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik eftir mark ísraelska liðsins og Maccabi Tel Aviv leiddi því með einu marki gegn engu í hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst með látum

Síðari hálfleikurinn fór fjörlega af stað og strax á 56. mínútu fengu Ísraelarnir hornspyrnu. Boltinn fór yfir allan pakkann og beint fyrir fætur Dor Peretz sem stýrði honum í markið.

Markið var hins vegar dæmt af eftir að VAR-athugun þar sem boltinn fór í höndina á Peretz í aðdraganda marksins.

Fjórum mínútum síðar dró til tíðinda þegar Gísli Eyjólfsson reyndi að fara í þríhyrningsspil við Kristinn Steindórsson í vítateig Maccabi Tel Aviv.

Boltinn barst aftur til Gísla, sem gerði mjög vel í að halda hlaupinu áfram inn í teiginn, og hann plataði Orlando Mosquera í marki Ísraelanna upp úr skónum, áður en hann lagði boltann í tómt markið og staðan orðin 1:1.

Blikar voru mun aðgangsharðari eftir þetta og Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson áttu báðir hörkuskot að marki Maccabi Tel Aviv sem fóru bæði rétt yfir markið.

Sigurmark á 82. mínútu

Eran Zahavi kom Maccabi Tel Aviv svo yfir á nýjan leik á 82. mínútu þegar boltinn barst til hans, fyrir utan vítateig Blika. Hann lét vaða á markið og boltinn fór yfir Anton Ara sem hefði mögulega átt að geta betur í markinu og staðan orðin 2:1.

Bæði lið fengu færi til þess að bæta við mörkum á lokamínútum leiksins en inn vildi boltinn ekki og lokatölur því 2:1, Maccabi Tel Aviv, í vil.

Breiðablik 1:2 Maccabi Tel Aviv opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert