Ísland lagði Svíþjóð öðru sinni

Leikmenn íslenska liðsins fagna fyrra marki Hrafnhildar Ásu Halldórsdóttur í …
Leikmenn íslenska liðsins fagna fyrra marki Hrafnhildar Ásu Halldórsdóttur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U18-ára landslið stúlkna í knattspyrnu hafði betur gegn jafnöldrum sínum frá Svíþjóð, 4:1, þegar liðin áttust við í vináttulandsleik í Miðgarði í Garðabæ í hádeginu í dag.

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, leikmaður Breiðabliks, kom Íslandi í forystu á 32. mínútu með laglegu skallamarki eftir hornspyrnu frá hægri.

Leiddi íslenska liðið með einu marki í leikhléi.

Hrafnhildur Ása í þann mund að skora fyrsta mark leiksins.
Hrafnhildur Ása í þann mund að skora fyrsta mark leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svíar jöfnuðu metin snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu.

Á 72. mínútu náði Ísland hins vegar forystunni á ný. Þá skoraði Arnfríður Auður Arnarsdóttir, leikmaður Gróttu, með föstu og hnitmiðuðu skoti hægra megin úr vítateignum niður í fjærhornið eftir snarpa sókn.

Átta mínútum síðar kom þriðja mark íslensku stúlknanna. Það skoraði Berglind Freyja Hlynsdóttir, leikmaður FH, af miklu harðfylgi við markteiginn eftir að sænska liðinu tókst ekki að hreinsa frá.

Á 90. mínútu skoraði Ísland svo fjórða mark sitt. Þá slapp Hrafnhildur Ása ein í gegn eftir glæsilega sókn, lék á markvörð Svíþjóðar og renndi boltanum í autt markið. Var þetta annað mark hennar í leiknum.

Staðan orðin 4:1 og reyndust það lokatölur.

Fyrirliðinn Margrét Brynja Kristinsdóttir með boltann í leiknum í dag.
Fyrirliðinn Margrét Brynja Kristinsdóttir með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

U20-ára lið Íslands mætti U18-ára liði Svíþjóðar á miðvikudag, einnig í Miðgarði, og vann 1:0-sigur.

Íslensku liðin unnu því báða leikina gegn Svíum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert