Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þarf á stigi að halda þegar liðið mætir Wales í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Cardiff í Wales í kvöld klukkan 19.15.
Ísland er sem sem stendur í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig, þremur stigum meira en Wales sem er í neðsta sætinu án stiga.
Danmörk er í efsta sæti riðilsins með 12 stig og Þýskaland er í öðru sætinu með níu stig en liðin mætast í hinum leik riðilsins í Rostock klukkan 19.30.
Íslenska liðið er í baráttu við Wales um þriðja sæti riðilsins en það lið sem endar í þriðja sætinu fer í umspil í febrúar á næsta ári gegn liði í B-deild Þjóðadeildarinnar um sæti í A-deildinni. Liðið sem endar í neðsta sætinu fellur í B-deild.
Liðið sem endar í efsta sæti riðilsins fer áfram í undanúrslit keppninnar sem fara líka fram í febrúar og þar verður jafnframt leikið um tvö sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í París á næsta ári.
Liðið sem endar í öðru sæti heldur sæti sínu í A-deildinni í undankeppni EM 2025.
Ísland og Wales mættust á Laugardalsvelli þann 22. september í 1. umferð Þjóðadeildarinnar og þar hafði Ísland betur, 1:0.
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði sigurmark leiksins með skalla eftir hornspyrnu á 18. mínútu og reyndist það eina mark leiksins.
Íslenska liðið getur ekki endað ofar í 3. riðli en í þriðja sætinu en íslenska liðið gæti þó endað í fjórða sætinu, ef Wales vinnur með tveimur mörkum eða meira.
Í Þjóðadeildinni er það innbyrðisviðureign liðanna sem gildir og vinni Wales 1:0-sigur í kvöld þá verða liðin jöfn að stigum og jöfn þegar horft er til innbyrðisviðureigna.
Þá er það markatalan sem gildir og eins og sakir standa er Ísland með -6 í markatölu en Wales er með -10 í markatölu.
Verði liðin jöfn að markatölu þá eru það skoruð mörk sem gilda og þar hefur Wales vinninginn en liðið hefur til þessa skorað þrjú mörk í riðlakeppninni á meðan Ísland hefur aðeins skorað eitt mark.
Leikur Wales og Ísland hefst klukkan 19.15 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.