Var það Hildur sem skoraði?

Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í kvöld.
Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það er erfitt að útskýra suma hluti í íþróttum,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 2:1-sigur liðsins gegn Wales í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Cardiff í kvöld.

Hildur Antonsdóttir og Dilja Ýr Zomers skoruðu mörk íslenska liðsins í sitt hvorum hálfleiknum.

„Fótbolti og íþróttir yfir höfuð snúast að mörgu leyti um andlega þáttinn og það var bæði stress og ákveðið óöryggi í mannskapnum til að byrja með. Við vorum hálfrög einhvern vegin og það vantaði kraft í það sem við vorum að gera. Við lentum í smá basli en svo unnum við okkur ágætlega út úr því,“ sagði Þorsteinn.

Það var þungu fargi létt af landsliðsþjálfaranum þegar Hildur Antonsdóttir kom íslenska liðinu yfir á 29. mínútu.

„Var það Hildur sem skoraði? Ég sá ekki einu sinni hver skoraði en ég var mjög glaður þegar markið kom. Þegar að okkur leið vel með boltann þá gerðust hlutirnir hjá okkur og við þorðum að halda honum. Fótbolti snýst um það að líða vel með boltann og hafa trú á því sem þú ert að gera,“ sagði Þorsteinn í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert