Sigur í Cardiff og Ísland fer í umspilið

Ísland tryggði sér í kvöld þriðja sætið í 3. riðli A-deildar Þjóðadeildar kvenna í fótbolta með því að sigra Wales, 2:1, í Cardiff, og fer þar með í umspil um sæti í A-deild undankeppni EM 2025.

Þeir umspilsleikir fara fram í febrúar þar sem leikið verður heima og heiman gegn einhverri þeirra þjóða sem endar í öðru sæti í sínum riðli í B-deild keppninnar.

Ísland er með sex stig í þriðja sætinu eftir fimm umferðir en Wales er án stiga og er fallið niður í B-deildina.

Íslensku landsliðskonurnar fagna Hildi Antonsdóttur eftir að hún kom Íslandi …
Íslensku landsliðskonurnar fagna Hildi Antonsdóttur eftir að hún kom Íslandi yfir á 29. mínútu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hildur Antonsdóttir og Diljá Ýr Zomers skoruðu mörk Íslands og gerðu b áðar sitt

Walesbúar byrjuðu leikinn mun betur og komu sér nokkrum sinnum í hættulegar stöður á fyrstu 15 mínútunum. Markskotin þeirra voru þó ekki nærri því að rata í íslensku netmöskvana.

Hlín Eiríksdóttir komst í fyrsta færi Íslands á 16. mínútu en skaut beint á markvörðinn.

Ceri Holland átti skalla úr ágætu færi á 20. mínútu en beint á Telmu Ívarsdóttur í marki Íslands.

Hlín Eiríksdóttir í baráttu við Hayley Ladd í leiknum í …
Hlín Eiríksdóttir í baráttu við Hayley Ladd í leiknum í Cardiff í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska liðið náði forystunni á 29. mínútu, frekar gegn gangi leiksins. Sædís Rún Heiðarsdóttir sendi fyrir markið frá vinstri, boltinn fór af Hlín Eiríksdóttur í markteignum til Hildar Antonsdóttur sem renndi sér á hann og kom honum yfir marklínuna, 1:0 fyrir Ísland.

Ísland átti sinn besta kafla í fyrri hálfleik fyrir og eftir markið en Wales átti síðan tvær hættulegar tilraunir seint í hálfleiknum. Angharad James átti hörkuskot rétt framhjá markinu og Jess Fishlock skaut föstu skoti sem Telma varði vel.

James fékk fyrsta færi síðari hálfleiks á 50. mínútu eftir góð tilþrif en skaut hátt yfir íslenska markið. Velska liðið sótti af talsverðum krafti á upphafsmínútum hálfleiksins en fékk ekki fleiri færi á þeim karfa.

Íslenskir áhorfendur í stúkunni á Cardiff City Stadium í kvöld.
Íslenskir áhorfendur í stúkunni á Cardiff City Stadium í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ísland fékk hins vegar dauðafæri á 57. mínútu þegar Sandra María Jessen átti viðstöðulaust skot af markteig sem Clark varði mjög vel. Hlín fylgdi á eftir og boltinn fór af henni í stöngina en dæmd var hendi á hana.

Íslenska liðið komst betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og um jafna baráttu var að ræða án þess að liðin sköpuðu sér teljandi færi.

Ísland gerði út um leikinn á 79. mínútu. Snögg sókn, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sendi boltann frá hægri í áttina að vítateignum, Diljá Ýr Zomers tók við honum, lék að vítaboganum og skaut þaðan hörkuskoti í hægra hornið, 2:0.

Eftir þetta var íslenska liðið með góð tök á leiknum. Á 90. mínútu slapp Diljá inn fyrir vörnina eftir sendingu Karólínu en var í þröngu færi eftir að hafa komist fram hjá markverðinum, renndi þá boltanum út og sóknin rann út í sandinn.

Íslensku landsliðskonurnar hita upp á Cardiff City Stadium.
Íslensku landsliðskonurnar hita upp á Cardiff City Stadium. Ljósmynd/Alex Nicodim

Wales náði að minnka muninn á síðustu mínútu í uppbótartíma þegar Elise Hughes skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri, 2:1, en það kom ekki að sök því leiktíminn var nánast liðinn og góður sigur Íslands var í höfn.

Wales 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Diljá Ýr Zomers fær sendingu inn fyrir vörnina frá Karólínu, leikur framhjá markverðinum vinstra megin en er í þröngu færi og velur að renna boltanum út. Ekkert verður úr efnilegri sókn því misheppnuð fyrirgjöf kemur í kjölfarið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert