Fanney Inga Birkisdóttir verður í markinu hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Danmörku í 3. riðli Þjóðadeildar UEFA í Viborg í Danmörku á morgun.
Þetta tilkynnti Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við RÚV í dag en Fanney Inga er einungis 18 ára gömul.
Telma Ívarsdóttir, sem varið hefur mark Íslands í Þjóðadeildinni, tekur út leikbann annað kvöld og valið stóð því á milli þeirra Fanneyjar og Guðnýjar Geirsdóttur, markvarðar ÍBV.
Fanney Inga varði mark Íslandsmeistara Vals á síðustu leiktíð en hún á að baki 21 landsleik fyrir yngri landslið Íslands.