Íslenska U19-ára landsliðið í knattspyrnu kvenna fer ekki á heimsmeistaramót U20-ára liða í Kólumbíu á næsta ári. Það varð ljóst þegar Ísland tapaði stórt, 0:6, fyrir Austurríki í umspili um laust sæti á mótinu í Salou á Spáni í dag.
Leikurinn fór erfiðlega af stað fyrir íslenska liðið þar sem Nicole Ojukwu kom Austurríki í forystu eftir aðeins ellefu mínútna leik.
Ojukwu var svo aftur á ferðinni um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var þá orðin 2:0.
Lykilmaður Íslands, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, leikmaður Breiðabiks, meiddist að því er virtist illa og var borin af velli skömmu fyrir leikhlé. Enn átti hins vegar vont eftir að versna.
Stuttu síðar fékk Eyrún Embla Hjartardóttir, leikmaður Stjörnunnar, nefnilega beint rautt spjald fyrir brot sem aftasti varnarmaður og Austurríki fékk aukaspyrnu á stórhættulegum stað.
Ojukwu tók aukaspyrnuna, gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr henni og staðan var því orðin 3:0, og austurríski sóknarmaðurinn búinn að fullkomna þrennuna.
Enn var tími fyrir Austurríki til auka á ófarir Íslands. Var vítaspyrna dæmd á Sigdísi Evu Bárðardóttur, leikmann Víkings úr Reykjavík, í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoraði Isabel Aistleitner af öryggi úr henni á fimmtu mínútu uppbótartímans.
Staðan var því 4:0 þegar loks var flautað til leikhlés.
Síðari hálfleikur var heldur rólegri en á 70. mínútu kom fimmta markið. Það skoraði Alisa Ziletkina, aðeins mínútu eftir að hún hafði komið inn á sem varamaður fyrir títtnefnda Ojukwu.
Ziletkina var svo aftur á ferðinni þremur mínútum fyrir leikslok og skoraði annað mark sitt og sjötta mark Austurríkis.
Sex marka sigur Austurríkis reyndist því niðurstaðan sem þýðir að liðið fer á HM 2024 í Kólumbíu í ágúst á næsta ári.