„Við komum með flugeldana inn á völlinn“

Fanney Inga Birkisdóttir á æfingu með íslenska A-landsliðinu.
Fanney Inga Birkisdóttir á æfingu með íslenska A-landsliðinu. mbl.is/Hákon Pálsson

„Mér leið ótrúlega vel. Ég er með frábæra leikmenn fyrir framan mig og það var geggjað að koma inn í þetta, sérstaklega með svona mikið af fólki á vellinum,“ sagði Fanney Inga Birkisdóttir í samtali við RÚV eftir magnaða frumraun sína með íslenska landsliðinu í knattspyrnu í 1:0-sigri á Danmörku í kvöld.

Fanney Inga, sem er 18 ára gömul, var að leika sinn fyrsta A-landsleik og steig ekki feilspor.

„Tilfinningin var frábær. Ég fékk mjög mikla gæsahúð þegar ég var að syngja þjóðsönginn. Það var sturluð tilfinning.

Maður er búinn að vinna lengi að því að fá að spila leik. Það var sérstaklega gott að mæta stóra bróður og vinna leikinn.

Danirnir ætluðu að vera með einhverja svaka sýningu og byrjuðu á flugeldum. Svo komum við bara með flugeldana inn á völlinn og sigldum þessu í höfn,“ hélt hún áfram.

Tala til að halda mér inni í leiknum

Er Fanney Inga var spurð hvort hún hefði ekki einfaldlega spilað sig inn í byrjunarliðið með frammistöðunni í kvöld sagði markvörðurinn knái:

„Ég veit það ekki, það verður bara að koma í ljós.“

Í samtalinu við RÚV var Fanney Inga raddlítil og það ekki að ósekju.

„Ég reyni að tala til að halda mér inni í leiknum þannig að röddin mín er smá hás núna.“

Hlakka til að knúsa fjölskylduna

Fjöskylda hennar gerði sér ferð til Viborgar þegar það var gefið út að Fanney Inga myndi fá tækifærið í byrjunarliðinu.

„Pabbi, mamma, afi og amma eru hérna uppi í stúku. Ég hlakka til að fara og knúsa þau.

Ég fann fyrir mjög miklum styrk frá þeim. Það var gott að hafa þau hérna með mér,“ sagði Fanney Inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert