„Við sögðum hingað og ekki lengra“

Íslenskum sigri fagnað í kvöld.
Íslenskum sigri fagnað í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Það var ógeðslega kalt en rosalega gaman að spila þennan leik,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, markaskorari Íslands í 1:0-sigri á Danmörku í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í kvöld, í samtali við RÚV.

„Það var einhvern veginn öll pressan á þeim og flugeldasýning í byrjun. Við sögðum bara hingað og ekki lengra og ætluðum að taka þrjú stig,“ bætti hún við.

Spurð hvort um besta leik hennar fyrir íslenska landsliðið hafi verið að ræða sagði Karólína Lea:

„Ég fæ mikið frelsi hjá Steina og þær voru að skilja eftir sig pláss á milli varnar og miðju sem ég gat hlaupið í.

Ég hefði mátt vera betri varnarlega þannig að ég veit ekki alveg hvort þetta hafi verið minn besti leikur.“

Hún kvaðst hafa verið bjartsýn á sigur fyrir leik þrátt fyrir að mikið væri undir hjá Danmörku, sem hefði með sigri tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum næsta sumar.

„Já, það er íslenska geðveikin. Maður fer aldrei í neinn leik til að vera eitthvað að tapa. Það var gott pepp-vídeó frá Ása [Ásmundi Haraldssyni aðstoðarþjálfara] fyrir leik sem gerði okkur alveg trylltar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert