Danir fara hamförum: Fengu ísbað í Viborg

Íslenska liðið fagnar marki Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í Viborg í …
Íslenska liðið fagnar marki Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í Viborg í gær. Ljósmynd/Alex Nicodim

Danskir fjölmiðlar spöruðu ekki lýsingarorðin eftir tap danska kvennalandsliðsins gegn því íslenska í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu í Viborg í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri íslenska liðsins þar sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sigurmark leiksins á 77. mínútu.

Ísland hafði að litlu að keppa fyrir leikinn þar sem liðið var öruggt með þriðja sæti riðilsins en það var allt undir hjá danska liðinu sem háði harða baráttu við Þjóðverja um efsta sæti riðilsins og Dönum hefði dugað sigur gegn Íslandi til þess að tryggja sér það.

Vonuðust eftir jólakraftaverki

„Danska liðið vonaðist eftir jólakraftaverki en í staðinn fengu þær ísbað í Viborg,“ segir í umfjöllun danska ríkismiðilsins DR en með sigri hefðu Danir átt góða möguleika á sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í París næsta sumar.

„Þvílík vonbrigði! Kvennalandsliðið gerði sig að fíflum í baráttunni um sæti á Ólympíuleikunum,“ segir meðal annars í umfjöllun Bold.dk sem hefur skrifað nokkrar fréttir tengdar tapinu.

„Kvennalandsliðið í sárum eftir hrikalegt tap,“ segir enn fremur í umfjöllun Bold en með sigri í riðlinum hefðu Danir komist í undanúrslit Þjóðadeildarinnar og þar hefðu þrjú af fjórum liðum getað tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert