Mál knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar er komið á borð embættis héraðssaksóknara.
Þetta upplýsti Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við RÚV en hún vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið.
Albert, sem er 26 ára gamall, var kærður fyrir kynferðisbrot þann 22. ágúst og hefur því ekki mátt leika með íslenska karlalandsliðinu síðan þá.
Hann er samningsbundinn Genoa í ítölsku A-deildinni þar sem hann hefur leikið frábærlega á tímabilinu og skorað fimm mörk í 12 leikjum í ítölsku A-deildinni.
Embætti héraðssaksóknara mun svo taka ákvörðun um það hvort Albert verði ákærður eða málið látið niður falla.