Breiðablik tilkynnti fyrr í dag að knattspyrnumaðurinn Kristinn Jónsson væri búinn að skrifa undir hjá félaginu en hann gengur í raðir félagsins frá KR.
Kristinn hóf feril sinn hjá Breiðabliki en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með félaginu árið 2017. Hann lék með félaginu til ársins 2013 þegar hann fór á láni til sænska félagsins Brommapojkarna. Hann snéri svo aftur í Breiðablik árið 2015 og árið 2017 en hann lék inn á milli með Sogndal og Sarpsborg í Noregi. Árið 2018 skrifaði hann svo undir hjá KR.
Kristinn er 33 ára gamall og er tíundi leikjahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild frá fyrri tíma hans með félaginu með 148 leiki. Hann á samtals 268 leiki að baki í efstu deild með KR og Breiðabiki og er orðinn ellefti leikjahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla hér á landi.
Með leikjunum í Noregi og Svíþjóð á Kristinn samtals að baki 300 deildaleiki á ferlinum en hann lék 300. leikinn í lokaumferð Bestu deildarinnar í október.
Kristinn hefur leikið 8 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hann lék 32 leiki með yngri landsliðunum á sínum tíma.
Hjá Breiðabliki kemur Kristinn í stað bakvarðarins Davíðs Ingvarssonar sem mun leika sinn síðasta leik fyrir Breiðablik á fimmtudaginn gegn Zorya Luhansk í Sambandsdeildinni en Davíð stefnir nú á atvinnumennsku erlendis.