Hafrún samdi við Bröndby

Hafrún Rakel Halldórsdóttir í leik Íslands og Þýskalands í haust.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir í leik Íslands og Þýskalands í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við Bröndby í Danmörku.

Breiðablik staðfesti þetta á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Hafrún, sem er 21 árs gömul, lék sinn tíunda landsleik síðasta þriðjudag þegar Ísland vann Danmörku í Viborg, 1:0.

Hún hefur leikið með Breiðabliki frá 2020 og spilað með liðinu 57 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað níu mörk. Fram til þess tíma lék hún með Aftureldingu.

Hjá Bröndby hittir hún fyrir fyrrverandi samherja hjá Breiðabliki, Kristínu Dís Árnadóttur. 

Bröndby er á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 13 leiki og er með fjögurra stiga forskot á næstu lið, Nordsjælland og Köge. Liðið á eftir einn leik fyrir áramót, gegn Kolding um næstu helgi, en síðan er vetrarfrí í deildinni til 9. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert