Ísland mætir Serbíu í umspilinu

Ísland hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli í Þjóðadeildinni.
Ísland hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli í Þjóðadeildinni. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ísland mætir Serbíu í umspilinu um sæti í A-deild undankeppni Evrópumóts kvenna 2025 í fótbolta en dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss rétt í þessu.

Leikirnir fara fram á bilinu 21. til 28. febrúar, sá fyrri í Serbíu en sá síðari er heimaleikur Íslands sem óvissa ríkir um hvar muni fara fram.

Sigurliðið í einvíginu leikur í A-deild undankeppninnar en tapliðið í B-deild. Í A-deildinni verður tækifæri til að tryggja sér sæti í lokakeppni EM án þess að fara í umspil.

Serbía, sem er í 35. sæti á heimslista FIFA, 21 sæti fyrir neðan Ísland, hafnaði í öðru sæti þriðja riðils B-deildar með tíu stig úr sex leikjum. Pólland vann riðilinn með 13 stig og komst beint í A-deildina. Úkraína fékk sex stig og Grikkland þrjú stig.

Serbar unnu Grikki 4:0 heima og 2:0 úti og unnu Úkraínu 2:1 á útivelli. Serbneska liðið gerði jafntefli, 1:1, við Pólland á heimavelli en tapaði 2:1 í Póllandi og 1:0 á heimavelli gegn Úkraínu.

Þessi lið mætast í umspilinu um sæti í A-deildinni:

Serbía - Ísland
Ungverjaland - Belgía
Bosnía - Svíþjóð
Króatía - Noregur

Um leið var dregið í umspili um sæti í B-deildinni og þar mætast:

Lettland - Slóvakía
Svartfjallaland - Norður-Írland
Búlgaría - Úkraína

Loks var dregið til undanúrslita í A-deild Þjóðadeildarinnar og þar mætast:

Spánn - Holland
Frakkland - Þýskaland

Í A-deildinni er einn leikur í undanúrslitum, Spánn og Frakkland leika á heimavelli, og sigurliðin mætast í úrslitaleiknum. Úrslitaliðin tvö tryggja sér jafnframt sæti á Ólympíuleikunum í París 2024 en verði Frakkar annað þeirra verður leikurinn um þriðja sætið úrslitaleikur um ólympíusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert