Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, gekkst undir aðgerð á dögunum vegna meiðsla í hæl og þarf því að styðjast við hækjur þessa dagana.
Landsliðsfyrirliðinn, sem er 34 ára gamall, reiknar með því að geta byrjað að æfa af fullum krafti á nýjan leik strax á nýju ári í janúar.
Í samtali við 433.is greinir Aron frá því að í aðgerðinni hafi verið slípað örlítið af hælbeininu, en þar hafi hann fundið fyrir eymslum.
Til stendur að Aron Einar finni sér nýtt lið í Katar í janúar en hann er samningsbundinn Al-Arabi þar í landi.
Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar en leikurinn fer fram ytra í mars.
Sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM og vonast Aron Einar til þess að vera orðinn klár í slaginn fyrir umspilið mikilvæga.