Myndi breyta öllu fyrir okkur

Elín Rósa var maður leiksins í dag.
Elín Rósa var maður leiksins í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta spilaðist mjög skemmtilega og var ógeðslega gaman,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, maður leiksins í 30:23-sigri Íslands á Kína í Forsetabikarnum á HM í handbolta í Frederikshavn í Danmörku í dag.

Elín var í byrjunarliði Íslands í dag í fyrsta skipti á mótinu og stóð heldur betur fyrir sínu. Skoraði hún sex mörk, lagði upp nokkur í viðbót og var í leikslok valin maður leiksins.

„Ég fékk að vita það á milli 10 og 11 í morgun. Þetta voru hefðbundnir klukkutímar fram að leik, þótt það sé aðeins öðruvísi hlutverk að byrja en að koma inn á. Það getur verið meira krefjandi því á bekknum færðu að sjá hvernig leikurinn spilast og lærir á andstæðinginn,“ sagði hún.

Elín Rósa, númer 22, stendur vörnina í dag.
Elín Rósa, númer 22, stendur vörnina í dag. Ljósmynd/IHF

Elín naut þess að spila á móti spræku kínversku liði. „Þetta var mjög skemmtilegt lið að spila á móti. Þær reyndu að keyra á okkur eins og þær gátu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þær eru ekki þær hávöxnustu en eru mjög klókar.“

Kína jafnaði þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður en þá sagði íslenska liðið hingað og ekki lengra og vann að lokum öruggan sigur.

„Ég sá að staðan var jöfn, en mér fannst við samt vera með tökin á þessu, þótt þetta leit kannski ekki þannig út. Mér leið vel inni á vellinum, öfugt við á móti Paragvæ. Þá var smá panik þegar þær fóru að nálgast okkur,“ útskýrði Elín.

Elín Rósa Magnúsdóttir var maður leiksins í dag.
Elín Rósa Magnúsdóttir var maður leiksins í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Ísland mætir Kongó í úrslitaleik Forsetabikarsins á miðvikudag og fer með bikar heim til Íslands með sigri. „Það myndi breyta öllu fyrir okkur og væri ógeðslega gaman að koma með bikar heim og hvað þá Forsetabikarinn,“ sagði hún.

Leikmenn sem valdir eru menn leiksins fá stórt spjald til að taka með sér heim, en það passar tæplega í venjulega ferðatösku. „Ég fæ Kjartan Vídó [markaðsstjóra HSÍ sem er í för með liðinutil að klippa það fyrir mig,“ sagði Elín Rósa létt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert