„Mér fannst kominn tími til að taka næsta skref á ferlinum,“ segir knattspyrnukonan Hafrún Rakel Halldórsdóttir í samtali við Morgunblaðið en hún skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið Bröndby.
Hafrún Rakel, sem er 21 árs gömul, kemur til danska félagsins frá Breiðabliki þar sem hún hefur leikið frá árinu 2020. Hún er uppalin hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ en alls á hún að baki 57 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað níu mörk.
Hún varð Íslandsmeistari með Blikum árið 2020 og bikarmeistari með liðinu árið 2021. Þá á hún að baki tíu A-landsleiki þar sem hún hefur skorað eitt mark.
„Ég fann það hjá sjálfri mér eftir tímabilið að ég væri tilbúin til þess að reyna fyrir mér erlendis. Ég heyrði svo af áhuga Bröndby og eftir það gengu hlutirnir frekar hratt fyrir sig. Það voru nokkur lið sem höfðu samband, meðal annars frá Belgíu og Svíþjóð, en mér fannst mikilvægt að ég færi í lið þar sem ég fengi að spila og þess vegna valdi ég að ganga til liðs við Bröndby."
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.