Að minnsta kosti tvö sænsk félög hafa mikinn áhuga á Jóhannesi Karli Guðjónssyni, aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.
Félögin sem um ræðir eru annars vegar Norrköping líkt og komið hefur fram og þá hefur hins vegar sænska B-deildarfélagið Öster einnig mikinn áhuga á Jóhannesi Karli.
Srdjan Tufegdzic lét af störfum sem þjálfari Öster að tímabilinu loknu og Alex Þór Hauksson yfirgaf félagið einnig á dögunum eftir þrjú ár í herbúðum þess.
„Við gáfum honum leyfi til þess að fara í viðræður í Svíþjóð,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, í samtali við mbl.is þegar hann ræddi málefni Jóhannesar Karls.
„Við viljum alls ekki standa í vegi fyrir íslenskum þjálfurum þegar möguleikinn er til staðar fyrir þá að þjálfa á erlendri grundu. Við eigum nokkra frábæra þjálfara á erlendri grundu og markmiðið er að fjölga þeim á næstu árum.
Við viljum sjá íslenska þjálfara stíga næsta skref því þeir eru svo sannarlega fullfærir um það og eiga það skilið líka. Auðvitað yrði erfitt að horfa á eftir Jóhannesi Karli sem er frábær þjálfari en þetta er líka frábært tækifæri fyrir hann og þannig viljum við horfa á það,“ sagði Jörundur Áki í samtali við mbl.is.