Horfir sáttur yfir árið

Þorsteinn Halldórsson fylgist með sínum leikmönnum hita upp fyrir leikinn …
Þorsteinn Halldórsson fylgist með sínum leikmönnum hita upp fyrir leikinn gegn Dönum í Viborg. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er mjög sáttur við stigasöfnun íslenska liðsins í síðasta landsleikjaglugga.

Íslenska liðið hafði betur gegn Wales í Cardiff, 2:1, hinn 1. desember og Danmörku í Viborg, 1:0, hinn 5. desember í lokaleikjum sínum í 3. riðli Þjóðadeildarinnar og tryggði sér um leið þriðja sæti riðilsins og sæti í umspili í febrúar um sæti í A-deild undankeppni EM 2025 þar sem Ísland mætir Serbíu í tveimur leikjum, heima og að heiman.

„Tilfinningin eftir þennan landsleikjaglugga er mjög góð og ég myndi segja að ég sé mjög sáttur heilt yfir,“ sagði Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið.

„Stigasöfnunin var mjög góð, frábær í rauninni og leikirnir fínir líka. Það var mikið af jákvæðum hlutum í okkar leik og jákvæð þróun líka. Mér finnst liðið alltaf verða betra og betra með hverjum leiknum sem líður. Það var gott að vinna þennan leik gegn Wales og fara þannig séð pressulaus inn í leikinn gegn Danmörku.

Það er alltaf þægilegra í fótbolta að fara inn í fótboltaleik án þess að þurfa að hafa stórkostlegar áhyggjur en á sama tíma er alltaf mikil pressa sem fylgir því að spila fyrir landsliðið og það er ekkert annað í boði en að standa sig,“ sagði Þorsteinn.

Landsliðsþjálfarinn horfir nokkuð sáttur yfir árið og er spenntur fyrir komandi umspilsleikjum gegn Serbíu í febrúar á næsta ári.

„Þetta verða tveir hörkuleikir gegn Serbíu og þessar austantjaldsþjóðir eru alltaf að verða betri og betri. Fyrir 10 til 15 árum hefðum við óskað eftir því að mæta þessum þjóðum en það er ekki þannig lengur og þessar þjóðir eiga núna allar möguleika á því að koma sér upp í A-deild fyrir undankeppni EM, sem verður að teljast góður árangur.

Serbar eru með góða leikmenn á sínum snærum, meðal annars framherja Bayern München, Jovönu Damnjanovic sem er hörkuleikmaður, en við ætlum okkur klárlega sigur í þessu umspili, á því leikur enginn vafi."

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert