Ætlar að ná markmannsstöðunni af Ingvari

Pálmi Rafn Arinbjörnsson samdi við Víking til fjögurra ára í …
Pálmi Rafn Arinbjörnsson samdi við Víking til fjögurra ára í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Knattspyrnumarkvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson kveðst vera kominn til liðs við Íslands- og bikarmeistara Víkings frá Wolves á Englandi til að ná markvarðarstöðunni af öðrum Njarðvíkingi, Ingvari Jónssyni.

Pálmi gekk til liðs við Víking í dag og samdi við félagið til fjögurra ára og kemur þar í staðinn fyrir Þórð Ingason sem lagði markmannshanskana á hilluna á dögunum.

Pálmi er tvítugur og  fór sextán ára gamall frá Njarðvík til Wolves þar sem hann hefur leikið með unglingaliðum og U23-ára liði félagsins, og verið til taks fyrir aðalliðið.

Hann sagði við mbl.is í dag að það væru nokkrir mánuðir síðan það kom fyrst til tals að hann gengi til liðs við Víking.

„Þetta er búið að vera langt ferli því ég heyrði fyrst af miklum áhuga Víkinga í júlí. Þá varð ekkert úr þessu þar sem það var á miðju tímabili hérna á Íslandi. En núna síðustu tvo mánuðina fór málið aftur af stað. Wolves vildi fyrst ekki leyfa mér að fara en þegar félagið gat ekki boðið eitthvað betra þá varð þetta útkoman.

Þeir hjá Wolves komust að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir minn feril að ég fengi mig lausan og ég er ótrúlega sáttur við niðurstöðuna,” sagði Pálmi Rafn sem hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.

Hitaði oft upp með aðalliði Wolves

Hann er ánægður með dvölina hjá Wolves.

„Já, ég hef aðallega spilað með U23-ára liðinu og var fjórði markmaður hjá aðalliðinu. Ég fór oft með þeim í leiki í úrvalsdeildinni síðustu tvo vetur, til þess að vera til staðar ef það kæmu upp meiðsli á síðustu stundu í upphituninni, og hitaði þá oft upp með liðinu. Alltaf í heimaleikjunum og oft í útileikjunum, sem var geggjuð reynsla. Í vetur missti ég hins vegar af þessu eftir að hafa puttabrotnað illa sem kostaði mig tveggja mánaða fjarveru,” sagði Pálmi.

Hann var lánaður til norska B-deildarliðsins Skeid haustið 2022 og var þar í nokkrar vikur á lokaspretti tímabilsins.

„Ég kom inn í lið sem var í fallsæti og átti bara fimm leiki eftir. Þeir unnu fyrsta leikinn daginn eftir að ég kom, markvörðurinn stóð sig vel og hélt hreinu. Ég spilaði því bara síðasta leikinn sem var pirrandi en ég naut þess að koma í nýtt umhverfi og bætti mig alveg helling. En þetta vildi ég ekki gera aftur, koma inn á miðju tímabili í svona stöðu, og lærði því af þessu.“

Ingvar var hetjan í mínum augum

Fyrir hjá Víkingi er annar markvörður frá Njarðvík, Ingvar Jónsson, og Pálmi sagðist hlakka mikið til að vinna með honum og berjast við hann um markvarðarstöðuna. Hann kvaðst vera kominn til þess að verða aðalmarkvörður Víkings.

„Já, þetta er bara svoleiðis, maður verður að hafa trú á sjálfum sér og ég tel mig hafa getuna til að gera það. En fyrst og fremst get ég ekki beðið eftir því að vinna með Ingvari. Hann er toppmaður og toppmarkmaður og það verður geggjað að fá að læra af honum. Þetta er markmaður sem ég hef litið upp til heillengi, alveg síðan ég byrjaði í fótbolta.

Ég er of ungur til að muna eftir honum í markinu hjá Njarðvík og svo var ég ekki farinn að æfa fótbolta fyrr en ég var orðinn 11-12 ára. Þá var Ingvar farinn frá Stjörnunni og í atvinnumennsku en hann var hetja í mínum augum sem Njarðvíkingur að spila erlendis. Það var alveg geggjað. 

Nú er markmiðið hjá mér algjörlega það að slá hann út og vera markmaður númer eitt hjá Víkingi, þetta er ekkert öðruvísi en það.“

Pálmi kveðst alls ekki sjá eftir tímanum hjá enska félaginu Wolves.

„Þetta var langur tími en maður sér ekki eftir því að hafa farið út og látið reyna á þetta. Ég hefði alveg getað farið heim mikið fyrr í þægilegra umhverfi en það var ekki á dagskránni hjá mér. Núna er ég alls ekki að gefast upp á Wolves. Ég fékk tækifæri til að koma í Víking og vil nýta það,” sagði Pálmi Rafn Arinbjörnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka