Geggjað að fylgjast með Breiðabliki

Arnar Gunnlaugsson fylgist með Víkingum í leik á Kópavogsvelli.
Arnar Gunnlaugsson fylgist með Víkingum í leik á Kópavogsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, segir að það hafi verið geggjað að fylgjast með Breiðabliki taka þátt í riðlakeppni Evrópumóts, fyrstu íslenskra karlaliða.

Blikar luku síðasta fimmtudag keppni í Sambandsdeild Evrópu en þeir léku samtals 48 mótsleiki frá 4. apríl til 14. desember og þar af sextán Evrópuleiki.

„Það hefur verið geggjað að fylgjast með Blikunum komast í riðlakeppni og læra af þeim. Þeir voru fyrstir til að gera þetta og líka að fara í gegnum þessa reynslu, að æfa frá desember til desember. Finna út hvernig á að haga sínum æfingum, hvernig á að gera breytingar á liðinu milli leikja yfir sumartímann og halda þannig öllum ferskum, jafnframt því að vera að keppa á öllum vígstöðvum. Þetta er gríðarleg áskorun fyrir þjálfara og fyrir félagið. Sem betur fer voru þeir fyrstir,” sagði Arnar og hló þegar mbl.is ræddi við hann í dag.

Hann sagði að Víkingar hefðu búið sig vel undir að geta farið í jafnlangt tímabil og Blikar hafa nú lokið en þeir ætla sér að ná langt í Evrópukeppni á næsta ári.

„Það eru þrjú ár síðan við breyttum okkar æfingaformati. Eins og þetta er erlendis þá er  tímabilið tíu mánuðir, þú færð frí í fjórar vikur og undirbúningstímabilið er fjórar vikur. Þannig erum við búnir að haga okkur í þrjú ár og ættum því að vera tilbúnir í þetta.

Svo eru önnur lið kannski búin að haga sínum hlutum öðruvísi. Æft með það að markmiði að toppa í júní, eins og gengur og gerist í íslenskum fótbolta. En svo lengist tímabilið og þá tel ég okkur vera komna með smá forskot. En svo veit maður aldrei," sagði Arnar Gunnlaugsson þegar mbl.is ræddi við hann í kjölfarið á samningum við þrjá nýja leikmenn í hádeginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka