Jón Guðni, Valdimar og Pálmi Rafn til Víkings

Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson …
Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson í Víkinni í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Knattspyrnumennirnir Jón Guðni Fjóluson, Valdimar Þór Ingimundarson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson hafa allir komist að samkomulagi við Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík um að leika með liðinu.

Jón Guðni skrifaði undir tveggja ára samning og þeir Valdimar Þór og Pálmi Rafn skrifuðu báðir undir fjögurra ára samninga.

Jón Guðni er 34 ára gamall varnarmaður sem hefur verið í atvinnumennsku erlendis í ellefu ár, síðustu þrjú árin hjá Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni, en hann missti af tveimur síðustu tímabilum vegna alvarlegra meiðsla og hefur því ekkert spilað frá haustinu 2021.

Jón Guðni lék með meistaraflokki Fram á árunum 2007 til 2011, alls 48 leiki í efstu deild þar sem hann skoraði tíu mörk.

Hann gerðist atvinnumaður hjá Beerschot í Belgíu í árslok 2011, lék fjóra leiki með liðinu í A-deildinni, en fór þaðan til Svíþjóðar og lék í þrjú og hálft ár með Sundsvall í tveimur efstu deildunum í Svíþjóð.

Þaðan fór Jón Guðni til Norrköping, lék þar frá árinu 2016 og þar til hann var seldur til Krasnodar í Rússlandi sumarið 2018. Eftir tæp tvö tímabil þar fór Jón til Noregs og lék seinni hluta ársins 2020 með Brann en gekk síðan til liðs við Hammarby.

Jón Guðni hefur leikið 18 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, síðast gegn Þýskalandi í undankeppni HM haustið 2021, og skorað eitt mark, í vináttulandsleik gegn Perú árið 2018. Áður lék hann 11 leiki með 21-árs landsliðinu.

Valdimar er 24 ára gamall, uppalinn Fylkismaður og spilar sem sóknar- eða miðjumaður. Hann á að baki 53 leiki með Fylki í efstu deild þar sem hann skoraði 17 mörk.

Valdimar gekk til liðs við Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni seinni hluta tímabilsins 2020 og lék þar í hálft annað ár, og skoraði tvö mörk í 26 leikjum í deildinni.

Hann fór þaðan til Sogndal í norsku B-deildinni og hefur leikið þar undanfarin tvö tímabil og skorað 14 mörk í 56 deildaleikjum.

Valdimar hefur leikið tvo A-landsleiki og 11 leiki með U21-árs landsliði Íslands.

Pálmi Rafn er tvítugur markvörður sem kemur frá Wolverhampton Wanderers á Englandi.

Hann er alinn upp hjá Njarðvík en samdi við Úlfana fyrir fjórum árum og hefur leikið með unglingaliðum og U23 ára liði félagsins, en hann hefur að undanförnu verið fjórði í röðinni af markvörðum úrvalsdeildarliðs Wolves.

Pálmi Rafn var lánaður til norska félagsins Skeid á síðasta ári og lék þar einn leik í B-deildinni, eina meistaraflokksleik sinn á ferlinum til þessa.

Alls á hann 18 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert