Krefjandi að koma í þetta umhverfi

Valdimar Þór Ingimundarson í Víkingsbúningnum í dag.
Valdimar Þór Ingimundarson í Víkingsbúningnum í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Knattspyrnumaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson segir að hann viti nokkurn veginn að hverju hann gangi hjá Íslands- og bikarmeisturum Víkings og það sé gott skref fyrir sig á ferlinum að reyna að standa sig með jafnsterku liði.

Valdimar hefur leikið í Noregi frá haustinu 2020, fyrst með Strömsgodset í úrvalsdeildinni en tvö síðustu árin með Sogndal í norsku B-deildinni. Hann sagði við mbl.is í dag að það væri áskorun fyrir sig að reyna að vinna sinn fyrsta titil með Víkingum.

„Það er þannig lagað séð minna svið að spila á Íslandi en í Noregi en ég held að Víkingur sé ekki með verra lið en Sogndal. Það er vissulega gaman að spila erlendis og ég var í fullri atvinnumennsku hjá Sogndal en það eru skemmtilegir möguleikar fyrir hendi hjá Víkingi, deildin er orðin sterkari á Íslandi og svo er það þátttakan í Evrópukeppni sem heillar. Það verður gaman að takast á við það,” sagði Valdimar við mbl.is en hann er 24 ára gamall sóknarmaður og lék með Fylki frá unga aldri og þar til hann fór til Noregs.

En hvers vegna varð Víkingur fyrir valinu?

„Mér leist bara vel á Víkingana og allt í kringum liðið. Þeir eru með besta liðið á Íslandi, eru búnir að sanna það undanfarin ár. Það er gott skref fyrir mig að koma inn í svona gott lið og reyna að standa mig þar.”

Sérðu það sem stökkpall til að fara lengra í atvinnumennskunni?

Valdimar Þór Ingimundarson í leik með 21-árs landsliðinu gegn Frökkum …
Valdimar Þór Ingimundarson í leik með 21-árs landsliðinu gegn Frökkum í lokakeppni EM 2021. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég hef mjög lítið spáð í það. Maður tekur bara einn dag í einu, það er gaman að koma hingað í Víking og prófa að spila hérna og ég er ekkert að pæla í öðru núna.”

En kom til greina að fara aftur til Fylkis?

„Jú, það var alltaf heillandi og ég hugleiddi það alveg en held að þetta sé það rétta sem ég geri í stöðunni núna. Ég er og verð alltaf Fylkismaður en það er virkilega gaman að koma hingað í Víkina,” sagði Valdimar.

Klaufar að missa af umspilinu

Hann var í baráttu í efri hluta B-deildarinnar með Sogndal bæði árin þar en í bæði skiptin endaði liðið einu sæti frá því að komast í umspil um að fara upp. Útlitið var gott lengi vel á nýloknu tímabili en það endaði aftur með vonbrigðum.

Valdimar Þór Ingimundarson lék með meistaraflokki Fylkis frá 2016 til …
Valdimar Þór Ingimundarson lék með meistaraflokki Fylkis frá 2016 til 2020 og skoraði 17 mörk í 53 leikjum í efstu deild. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við vorum frábærir fyrri hluta mótsins og í öðru eða þriðja sæti þegar mótið var hálfnað. Liðið var mjög gott en svo lentum við bara í erfiðum meiðslum seinni hlutann, og þá hallaði undan fæti þegar kom að stóru leikjunum þar sem við þurftum að ná í stig. Við vorum klaufar að missa af því að komast í umspilið. Sogndal er flott félag en það er svo langt inni í landi í Noregi að það er erfitt að fá þangað leikmenn og það er auðveldara fyrir þá að ná í útlendinga í liðið en að fá Norðmenn til að koma til Sogndal,” sagði Valdimar um dvölina hjá félaginu.

Hann kvaðst hafa fylgst þokkalega með íslenska fótboltanum meðan hann bjó í Noregi.

„Já, ég gerði það. Ég fylgdist ekkert sérstaklega með Víkingi en sá stóru leikina þeirra, og sá hvað þeir voru að gera og veit því nokkurn veginn að hverju ég geng. Ég er alla vega með ákveðna mynd í huganum, þannig að þetta er mjög spennandi. Þetta er geggjaður hópur hjá Víkingi með marga góða leikmenn og því er krefjandi að koma í þetta umhverfi. Víkingar eru að reyna að verja titla en ég kem hingað með það að markmiði að vinna minn fyrsta titil,” sagði Valdimar Þór Ingimundarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka