Sterkasti hópur Íslandssögunnar?

Arnar Gunnlaugsson telur að 20 manna hópur Víkinga sér orðinn …
Arnar Gunnlaugsson telur að 20 manna hópur Víkinga sér orðinn firnasterkur með viðbótum dagsins í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu, telur að með tilkomu þriggja nýrra leikmanna sem kynntir voru til leiks í dag sé 20 manna hópur Víkinga orðinn sá sterkasti í Íslandssögunni.

Víkingar sömdu í dag við Jón Guðna Fjóluson, sem kemur frá Hammarby í Svíþjóð og hefur leikið sem atvinnumaður í tólf ár, Valdimar Þór Ingimundarson, sem kemur frá Sogndal og hefur leikið í Noregi í hálft fjórða ár, og Pálma Rafn Arinbjörnsson, tvítugan markvörð, sem hefur verið í röðum enska úrvalsdeildarfélagsins Wolves undanfarin fjögur ár.

„Þetta eru þrír ólíkir leikmenn, hver á sínum aldri, allt toppleikmenn, hver á sinn hátt, allir að koma úr atvinnumennsku, þannig að þeir koma heim með svolítið öðruvísi hugarfar. Nú er maður nýbúinn að horfa á Skagaþættina í sjónvarpinu og öll þessi frábæru lið á þeim tíma, en mér er til efs að með tilkomu þessara þriggja leikmanna sé nokkurt lið á Íslandi sem hafi verið með jafnsterkan 20 manna leikmannahóp," sagði Arnar við mbl.is eftir að leikmennirnir voru kynntir til sögunnar í Víkinni í dag.

„Þegar allir leikmenn í hópnum eru að slást um sæti í byrjunarliðinu, þá er þetta mikil styrking fyrir hópinn. Ef þessir þrír fá allir sæti í byrjunarliðinu verða einhverjir þrír sem detta út í staðinn. Þannig verður hópurinn sterkari og þar með verðum við betur í stakk búnir til að vinna titlana aftur og standa okkur vel í Evrópukeppni," sagði Arnar.

Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson, …
Valdimar Þór Ingimundarson, Jón Guðni Fjóluson og Pálmi Rafn Arinbjörnsson, nýir leikmenn Víkings. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Vissulega áhætta en hann er toppeintak

Jón Guðni hefur verið frá keppni vegna meiðsla frá haustinu 2021 og því ekki spilað fótboltaleik í rúm tvö ár. Arnar viðurkenndi að það væri ákveðin áhætta að fá leikmann á því stigi til félagsins.

„Já, vissulega er það áhætta. En þú sérð hvernig hann lítur út, hann er frábær íþróttamaður og ég held líka að hausinn á honum sé þannig innstilltur, eins og við sáum með Aron Elís Þrándarson síðasta sumar, að hann sé ekki að koma heim til að deyja. Hann finnur að umhverfið hjá okkur mun ýta undir hungrið hjá honum, sem var alveg til staðar. Allar mælingar sýna að hann sé í góðu lagi en það er enn bara desember og hann hefur góðan tíma til að komast inn í hlutina," sagði Arnar.

„Við munum ekki þvinga hann til að spila í Reykjavíkurmótinu í janúar, heldur mun hann koma hægt og rólega inn í þetta og ég held að hann eigi eftir að reynast okkur gríðarlega vel. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að við náðum að spila saman hjá Fram.

Síðasta tímabilið hans áður en hann fór út í atvinnumennskuna, þá var ég að ljúka mínúm ferli sem gamall hundur hjá Fram. Þá var hann orðinn góður leikmaður, og nú hittumst við aftur rúmum áratug síðar. Jón er líka toppeintak, gefðu mér góðan mann og þá vil ég vinna með honum," sagði Arnar, sem enn er þjálfari Víkings en bíður eins og fleiri eftir niðurstöðu Norrköping í Svíþjóð sem hefur rætt við hann um að taka  við þjálfarastarfinu þar.

Valdimar öðruvísi tegund af framherja

Valdimar er 24 ára sóknarmaður, fyrrum Fylkismaður, sem kemur til Víkings frá Sogndal í norsku B-deildinni þar sem hann hefur skorað 14 deildarmörk tvö síðustu tímabil.

„Valdimar er prófíll sem hentar okkur mjög vel. Hann er öðruvísi tegund af framherja en við höfum haft áður, er með ákveðinn X-factor og “kaos” inn í okkar skipulag, ef svo má að orði komast. Við reyndum áður að fá hann, ekki bara þegar hann fór  frá Fylki til Noregs, heldur líka í fyrra.

Fyrir okkur að fá hann, ekki einu sinni orðinn 25 ára gamlan, ekki enn kominn á sinn besta aldur, til að koma heim er mjög stórt því ég veit að hann hefði getað haldið áfram úti. Við keyptum hann frá Noregi, hann átti ár eftir af samningi þar. Það er gaman fyrir íslenskan fótbolta að leikmenn skuli koma heim á besta aldri þó þeir geti verið úti, að þeir velji að taka næsta skref á ferlinum hjá okkur," sagði Arnar.

Pálmi mun ýta mjög á Ingvar

Markvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson hefur leikið með unglingaliðum Wolves og hefur að undanförnu verið fjórði markvörður hjá aðalliði Úlfanna en hann fór til þeirra 16 ára gamall frá Njarðvík.

„Ég er mjög spenntur fyrir að sjá Pálma hjá okkur. Ég lít ekki á þetta eins og að við höfum verið að ná okkur í varamarkvörð, heldur að við höfum fengið markvörð sem sé kominn til að berjast við Ingvar Jónsson um að vera númer eitt. Við fengum mjög góð meðmæli með honum frá Wolves þar sem hann æfði með aðalliðinu og hefur tekið gríðarlegum framförum. Ég er mjög spenntur að fá að vinna með honum og sjá hvernig hann þróast, hvernig hann muni falla inn í okkar skipulag, og fyrst og fremst að sjá hann veita Ingvari harða keppni eins og Doddi (Þórður Ingason) gerði. 

Ég held að hann muni líka ýta mjög á Ingvar, ungir leikmenn hafa þannig áhrif á þá eldri, þeir koma með skemmtilega „kemistríu” inn í klefann þannig að ég bíð spenntur eftir honum.

Doddi veitti Ingvari harða keppni en hans fjölskylduaðstæður voru þannig að hann gat ekki æft hundrað prósent. Ósjálfrátt varð hann því númer tvö en spilaði í bikarnum og stóð sig mjög vel. Nú kemur ungur og graður strákur sem ætlar að setja á hann pressu alla leið og ég held að Víkingur njóti góðs af því. Annað hvort gefur Ingvar eftir, sem ég held að hann muni ekki  gera, eða þá að hann gefur enn frekar í og þá fáum við tvo dýnamíska karaktera sem etja kappi um stöðuna," sagði Arnar Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert