Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson kveðst bíða spenntur eftir því að geta byrjað að spila með Víkingum. Hann er búinn að semja við þá til tveggja ára en hefur ekki spilað fótboltaleik síðan 3. október árið 2021.
Þá sleit hann krossband í hné í leik með Hammarby gegn Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni og hefur frá þeim tíma þurft að gangast undir tvo uppskurði á hnénu. Nú er hann hins vegar kominn heim til Íslands eftir rúmlega tólf ár í atvinnumennsku og er búinn að semja við Íslands- og bikarmeistara Víkings til næstu tveggja ára.
„Já, þetta eru orðin næstum því tólf og hálft ár og lengst af búinn að vera góður tími en það er frábær tilfinning að vera kominn heim. Fjölskyldan var reyndar komin heim þegar ég spilaði í Rússlandi en þegar við fluttum aftur út og með börnin þrjú með okkur kom ekki annað til greina en að fara til Svíþjóðar þar sem við höfum verið áður og þekktum allt,” sagði Jón Guðni við mbl.is eftir undirskriftina við Víking í dag.
Hann lék stóran hluta tímans í Svíþjóð með Sundsvall, Norrköping og Hammarby en hóf þó atvinnumennskuna hjá Beerschot í Belgíu og lék með Krasnodar í Rússlandi frá 2018 til 2020 og síðan í hálft ár með Brann í Noregi.
Hann hafði verið orðaður við Víking í nokkurn tíma áður en gengið var frá tveggja ára samningi í gær.
„Kári Árnason var búinn að heyra í mér reglulega í langan tíma. Við erum góðir félagar, það er langt síðan hann hafði fyrst samband og við höfum talað reglulega saman. Það var fyrst og fremst vesenið á mér sem tafði tímann í þessu,” sagði Jón Guðni sem vonast eftir því að fyrsti leikurinn í langan tíma sé ekki langt undan.
„Ég er að færast nær og nær þessu smám saman, er með bolta sjálfur úti á velli og eyk álagið hægt og örugglega. Eftir seinni aðgerðina sem var framkvæmd 20. janúar á þessu ári hef ég tekið því rólegar í endurhæfingunni og það hefur gengið mjög vel og það hefur verið stígandi í þessu frá fyrsta degi.
Ég var með mikinn sársauka í hnénu eftir fyrri aðgerðina en var þver og þekkti þetta ekkert, hélt að þetta væri eðlilegt. En sýkingin gerði að verkum að bandið greri ekki eins og það átti að gera og þá þurfti að grípa inn í það og fara í aðra aðgerð til þess að þetta yrði örugglega í lagi.
Nú er hnéð í fínu standi og ég þarf að taka góðan tíma í að byggja mig upp en ég fikrast nær og nær. Maður var kominn með gjörsamlegt ógeð á hjóli og líkamsræktarsal, þannig að bara það að komast út á völl og fá að rekja bolta er geggjað, maður er eins og krakki og hefur engar áhyggjur af aldrinum,” sagði Jón Guðni.
Það liggur þó ekki fyrir hvenær hann spilar fyrsta leikinn í Víkingsbúningnum en Reykjavíkurmótið hefst í janúar, deildabikarinn í febrúar og Íslandsmótið væntanlega 6. apríl.
„Nei, í raun ekki. Eftir öll þessi bakslög hef ég æft eins vel og ég hef getað og ekki sett mér í nein markmið hvað tíma varðar. Það er gott að hafa markmið en það er erfitt í þessu því ef þú nærð ekki markmiðinu á þeim tíma sem þú ætlar þér verður þú bara pirraður og leiður þannig að ég hef á þessu ári tekið þetta dag frá degi og viku frá viku, og keyrt þetta eins vel og hægt er og líkaminn hefur leyft. Það hefur bara skilað sér vel.
Ég mun að sjálfsögðu ekki spila einhverjar 90 mínútur í fyrsta leik í vetrarmóti, og það er enn tími til stefnu fyrir Íslandsmótið, en þá vill maður líka vera orðinn 100 prósent tilbúinn,” sagði Jón Guðni.
Hann lék með meistaraflokki Fram í fjögur ár þar til atvinnumennskan tók við en sagði að það hefði verið auðvelt fyrir sig að fallast á það sem Víkingar höfðu fram að færa.
„Það sem er í gangi hérna heillaði mig. Maður langar til að spila fótbolta og slást um þá titla sem eru í boði og reyna að hjálpa Víkingum að ná þeirra markmiðum í Evrópukeppni og fleiru. Umhverfið hérna er mjög skemmtilegt og allt faglegt í kringum liðið. Þetta lítur vel út og er mjög spennandi, þess vegna er ég kominn hingað.
Ég hef fylgst þokkalega með íslenska fótboltanum og veit nokkurn veginn út hvað ég er að fara. Víkingar vilja vinna allt sem er í boði og það heillar líka,” sagði Jón Guðni Fjóluson.