Kærastinn kýs Ísland fram yfir heimalandið

Sandra María Jessen ásamt dóttur sinni Ellu Ylvi Kuester.
Sandra María Jessen ásamt dóttur sinni Ellu Ylvi Kuester. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Sandra María Jessen framlengdi samning sinn við uppeldisfélag sitt Þór/KA á dögunum til næstu tveggja ára.

Sandra María, sem er 28 ára gömul, varð samningslaus í október og hefur framtíð hennar verið í ákveðinni óvissu undanfarnar vikur.

Eins og áður sagði er Sandra uppalin á Akureyri og á að baki 153 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 89 mörk en hún hefur einnig leikið með Slavia Prag og Bayer Leverkusen á atvinnumannaferlinum.

Aðrir hlutir þurftu að smella

Sandra María talaði sjálf um það að hún væri opin fyrir því að snúa aftur í atvinnumennsku en hún lék með Bayer Leverkusen árið 2016 og Slavia Prag árið 2018 á láni frá Þór/KA en hún gekk alfarið til liðs við Leverkusen árið 2019 og lék með liðinu til 2021 áður en hún snéri heim úr atvinnumennsku og samdi við Þór/KA árið 2012.

„Til að byrja með þá var ég alveg að skoða það alvarlega að fara aftur út og það var einhver áhugi erlendis frá en ég vildi samt sem áður ekki fara út bara til þess að fara aftur út. Ef ég ætlaði að taka skrefið út á nýjan leik þá vildi ég komast í betri aðstæður en hér á Íslandi og í betra umhverfi. Það voru líka aðrir hlutir sem þurftu að smella eins og leikskóli fyrir dóttur mína og vinna fyrir kærastan minn.

Ég ræddi aðeins við forráðamenn Bayer Leverkusen en það var í raun aldrei neinn möguleiki á því að ég væri að fara aftur þangað. Liðið er að standa sig mjög vel í Þýskalandi og hópurinn er mjög stór. Þeir eru að reyna minnka hópinn sinn, frekar en stækka hann, en kannski verður staðan önnur eftir tvö ár. Þegar allt kemur til alls eru ég og fjölskyldan mjög hamingjusöm á Íslandi og kærastinn minn, sem er þýskur, kýst það frekar að búa á Íslandi en í Þýskalandi,“ sagði Sandra María í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka