Forráðamenn norska knattspyrnufélagsins Haugesund hafa lagt fram tilboð í Anton Loga Lúðvíksson, miðjumann Breiðabliks.
Þetta staðfesti Karl Daníel Magnússon, deildarstjóri afreksstarfs knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við mbl.is en þetta kom fyrst fram í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin.
Anton Logi, sem er tvítugur, á að baki 34 leiki í efstu deild þrátt fyrir ungan aldur þar sem hann hefur skorað fjögur mörk en hann lék 18 leiki með liðinu í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrverandi þjálfari Breiðabliks, tók við stjórnartaumunum hjá Haugesund eftir að tímabilinu lauk en hann hefur nú þegar fengið Hlyn Frey Karlsson frá Val til Noregs.
Haugesund hafnaði í tólfta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og leikur því í deild þeirra bestu á nýjan leik á næstu leiktíð.