Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er líklegastur til að hreppa þjálfarastöðuna hjá sænska knattspyrnuliðinu Norrköping en hann er einn af þremur sem koma til greina til að taka við karlaliði félagsins núna um áramótin.
Þetta fullyrðir staðarblaðið Norrköpings Tidingar í dag en Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands, og Peter Wettergren, aðstoðarþjálfari sænska karlalandsliðsins, eru hinir tveir sem koma til greina.
Tony Martinsson, íþróttastjóri Norrköping, vildi ekki staðfesta neitt við blaðið en kvaðst vonast til þess að nýr þjálfari yrði kominn um áramót.
Arnar er annars samningsbundinn Víkingi næstu tvö árin. Hann sagði við mbl.is á mánudaginn að ef niðurstaðan yrði sú að Norrköping vildi fá hann, þá þyrfti sænska félagið fyrst að ganga frá málum við Víkinga.