Keppni í Bestu deild kvenna í fótbolta 2024 hefst sunnudaginn 21. apríl, fyrr en nokkru sinni áður, samkvæmt drögum að Íslandsmótinu sem KSÍ hefur birt á heimasíðu sinni.
Deildinni á að ljúka 6. október, eins og á þessu ári, en á nýliðnu keppnistímabili fóru fyrstu leikir deildarinnar fram 25. apríl.
Íslandsmeistarar Vals eiga heimaleik gegn Þór/KA í fyrstu umferðinni en nýliðar Víkings í Reykjavík sem eru með sjálfstætt lið í deildinni í fyrsta sinn í 40 ár byrja á útivelli gegn Stjörnunni.
Þessi lið mætast í fyrstu umferð:
21.4. Valur - Þór/KA
21.4. Tindastóll - FH
22.4. Breiðablik - Keflavík
22.4. Fylkir - Þróttur R.
22.4. Stjarnan - Víkingur R.
Lokaumferðin í hefðbundinni deildakeppni á að fara fram sunnudaginn 25. ágúst. Þá tekur við skipting í efri og neðri hluta þar sem sex efstu liðin mætast innbyrðis, sem og þau fjögur neðstu.
Leikdagar á lokasprettinum eru 31. ágúst, 13. september, 22. september, 29. september og 5. október.