„Ég tók ákvörðun um að hætta og hef í raun aldrei litið um öxl eftir það,“ sagði knattspyrnukonan fyrrverandi Margrét Lára Viðarsdóttir í Dagmálum.
Margrét Lára, sem er 37 ára gömul, lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2019 eftir afar farsælan feril en hún er af mörgum talin besta knattspyrnukona sem Ísland hefur átt.
Margrét Lára hefur starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi frá því hún lagði skóna á hilluna og þá er hún einnig einn af eigendum Heil heilsumiðstöðvar þar sem hún starfar sem klínískur sálfræðingur.
„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði Margrét Lára.
„Ég hefði alveg getað spilað lengur en ég hefði þurft að hafa mjög mikið fyrir því, til þess að vera á þeim stað sem ég hefði viljað spila á.
Það hefði líka verið mjög erfitt fjölskyldulega séð,“ sagði Margrét Lára meðal annars.