„Þetta var ógeðslega erfitt og ógeðslega svekkjandi,“ sagði knattspyrnukonan fyrrverandi Margrét Lára Viðarsdóttir í Dagmálum.
Margrét Lára, sem er 37 ára gömul, lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2019 eftir afar farsælan feril en hún er af mörgum talin besta knattspyrnukona sem Ísland hefur átt.
Margrét Lára sleit krossband mánuði áður en lokakeppni Evrópumótsins 2017 fór fram í Hollandi og missti því af stórmótinu, en til stóð að hún myndi leiða liðið út á völlinn á mótinu sem fyrirliði liðsins.
„Við misstum Hörpu út, Dóru Maríu og mig í aðdraganda mótsins,“ sagði Margrét Lára.
„Við erum Ísland og það munar um minna. Þetta var gríðarlega svekkjandi því ég vissi að þetta væri mitt síðasta stórmót og ég var að fara þarna sem fyrirliði liðsins.
Elísa systir var líka komin þarna í hægri bakvörðinn og þetta átti að vera okkar mót en svona eru íþróttirnar og það er ekki í boði að drukkna þegar manni er hent út í ískalt vatnið,“ sagði Margrét Lára meðal annars.