Birkir leikur enn eitt árið með Val

Birkir Már Sævarsson í leik með Val síðasta sumar.
Birkir Már Sævarsson í leik með Val síðasta sumar. mbl.is/Óttar Geirsson

Birkir Már Sævarsson, einn reyndasti knattspyrnumaður landsins, hefur samið við Valsmenn um að leika með þeim eitt ár til viðbótar.

Birkir Már, sem verður fertugur í nóvember, er fluttur til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni en hefur nú komist að samkomulagi við Val um að leika með félaginu út komandi keppnistímabil.

Hann hefur leikið með meistaraflokki Vals frá árinu 2003, að undanskildum árunum 2008 til 2017 þegar hann lék sem atvinnumaður með Brann í Noregi og Hammarby í Svíþjóð.

Birkir á samtals 199 deildaleiki að baki með Val, þar af 188 í efstu deild þar sem hann er áttundi leikjahæsti Valsmaðurinn í deildinni, þrátt fyrir að hafa leikið erlendis í tæp tíu ár.

Sextándi leikjahæstur Íslendinga

Samtals á Birkir að baki 451 deildaleik á ferlinum, 199 með Val, 168 með Brann og 84 með Hammarby. Hann er orðinn sextándi leikjahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í deildakeppni frá upphafi og getur hækkað sig verulega á þeim lista áður en hann kveður Valsmenn eftir þetta keppnistímabil.

Þá lék Birkir 103 landsleiki fyrir Íslands hönd og er þriðji leikjahæsti landsliðsmaður karla frá upphafi. Hann lék með íslenska landsliðinu á bæði EM 2016 og HM 2018 og lagði landsliðsskóna á hilluna í árslok 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert