Bandaríska knattspyrnukonan Murielle Tiernan, einn besti leikmaður Bestu deildar kvenna með Tindastóli á síðasta tímabili, er gengin til liðs við 1. deildarlið Fram.
Þetta er mikill hvalreki fyrir Framara en Murielle hefur leikið með Tindastóli í sex ár og hefur skorað 98 mörk fyrir liðið í 102 leikjum í þremur deildum Íslandsmótsins.
Murielle, sem er 29 ára gömul, skoraði átta mörk í 20 leikjum liðsins í Bestu deildinni á síðasta tímabili og átti stóran þátt í að halda Skagfirðingum í deildinni. Fjögur markanna komu í ótrúlegum sigri Tindastóls á ÍBV í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni um áframhaldandi sæti í deildinni.
Fram var nýliði í 1. deildinni í fyrra og hélt sæti sínu þar af öryggi en liðið endaði í sjöunda sæti, tólf stigum fyrir ofan fallsæti.