Danski knattspyrnumarkvörðurinn Mathias Rosenörn er genginn í raðir Stjörnunnar frá Keflavík. Skrifaði Rosenörn undir þriggja ára samning, út árið 2026.
Fótbolti.net greinir frá.
Rosenörn gekk til liðs við Keflavík fyrir síðasta tímabili og var einn af ljósu punktunum hjá liðinu er það hafnaði í neðsta sæti Bestu deildarinnar og féll niður í 1. deild.
Hann lék 25 af 27 leikjum Keflavíkur í Bestu deildinni og var í liði ársins hjá Morgunblaðinu samkvæmt M-gjöfinni.
Rosenörn er þrítugur og kemur til með að veita Skagamanninum Árna Snæ Ólafssyni samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Stjörnunni.