Framtíðin björt hjá Íslandi

Andri Fannar Baldursson í baráttu í leiknum gegn Hondúras í …
Andri Fannar Baldursson í baráttu í leiknum gegn Hondúras í nótt. Ljósmynd/KSÍ

„Ég er hæstánægður með leikmennina og hugarfar þeirra,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við KSÍ TV eftir 2:0-sigur á Hondúras í vináttuleik í Flórída í Bandaríkjunum í nótt.

„Þeir vildu spila þrátt fyrir að vera ekki í sem bestu líkamlegu formi á þessum árstíma. Þeir gerðu það besta úr því og fylgdu fyrirmælum og leikáætluninni vel,“ hélt Hareide áfram.

„Það skiptir öllu máli að gera það, sérstaklega þegar liðið er svona. Þeir gerðu vel í báðum leikjum. Við verðum að byrja að safna sigrum.

Það kemst í vana og við þurfum að koma okkur upp þeim vana að fá ekki á okkur mörk, sem Ísland hefur áður gert. Það þarf líka að verða að venju að nýta færin okkar þegar við fáum þau.

Ef við náum í sigra fá leikmennirnir sjálfstraust. Við þurfum á því að halda þegar við förum í leikina í mars,“ bætti hann við og vísaði til umspilsleiks gegn Ísrael um laust sæti á EM 2024 í sumar.

Vel skólaðir á Íslandi

Ekki var um opinberan landsleikjaglugga að ræða og samanstóð íslenski hópurinn því ekki af öllum sterkustu leikmönnum sem völ er á.

„Það er mikilvægt að geta skoðað leikmenn sem geta spilað í vörninni. Við megum ekki við mikið af meiðslum því við höfum ekki úr það mörgum leikmönnum að velja.

Í dag var fjöldi ungra leikmanna á vellinum, leikmenn sem hafa staðið sig vel með U21-árs landsliðinu og eru vel skólaðir af þjálfurum á Íslandi og Davíð [Snorra Jónassyni] hjá U21-árs liðinu.

Það er mjög vel þegið og mér finnst gaman að sjá unga leikmenn fá tækifæri til þess að spila,“ sagði Hareide.

Hæfileikarnir til staðar

Spurður hvort einhverjir leikmannanna sem tóku þátt í landsliðsverkefninu nú gerðu tilkall til þess að vera í hópnum fyrir umspilsleikinn gegn Ísrael sagði norski þjálfarinn að lokum:

„Ég tel að sumir þeirra geri það sannarlega. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að það er stærðarinnar munur á leikjum með U21-árs landsliðinu og alvöru leikjum með A-landsliðinu.

Þá þarftu sérstaklega á reynslu að halda, sem hjálpar mikið, en þessir leikir sjá til þess að leikmennirnir öðlast reynslu. Hæfileikarnir eru til staðar og ég tel framtíðina bjarta hjá Íslandi.“

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka