Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafði betur gegn Hondúras, 2:0, í seinni vináttuleik liðsins í Fort Lauderdale í Flórídaríki í Bandaríkjunum í nótt. Ísland vann Gvatemala á laugardagsnótt og fer því með tvo sigra heim frá sólskinsríkinu.
Hondúras átti fleiri tilraunir í fyrri hálfleik en þær voru flestar af löngu færi og Hákon Rafn Valdimarsson lenti ekki í vandræðum í markinu. Hann þurfti þó að taka á honum stóra sínum á 23. mínútu er hann varði langskot frá José Pinto með tilþrifum.
Hinum megin tókst íslenska liðinu illa að skapa sér færi og hafði Marlon Licona lítið sem ekkert að gera í markinu. Ísak Snær Þorvaldsson átti eina færi Íslands í hálfleiknum en hann skallaði yfir af stuttu færi á 41. mínútu eftir horn frá Kolbeini Birgi Finnssyni.
Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi því 0:0.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og strax á annarri mínútu hálfleiksins náði Kolbeinn Þórðarson í víti eftir að hann náði boltanum af Pineda á hættulegum stað og Pineda tók miðjumanninn niður innan teigs.
Andri Lucas Guðjohnsen fór á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi með föstu skoti í bláhornið niðri.
Íslenska liðið hélt áfram að sækja og Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark er hann kom Íslandi í 2:0 á 57. mínútu. Jason Daði Svanþórsson gaf þá á Brynjólf sem lék skemmtilega á varnarmann og kláraði af öryggi í hornið.
Jason Daði var nálægt því að skora sitt fyrsta landsliðsmark er hann slapp einn í gegn á 68. mínútu en Luis López í marki Hondúras varði frá honum.
Hinum megin gaf íslenska liðið engin færi á sér í seinni hálfleik og var hálfleikurinn mun betur leikinn en sá fyrri. Skilaði það sterkum sigri og hefur íslenska liðið því nýtt ár með tveimur sigrum.