„Tilfinningin er mjög góð. Það er alltaf heiður að spila fyrir Ísland og mjög sterkt að ná inn marki,“ sagði Brynjólfur Willumsson við KSÍ TV eftir að hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sigri á Hondúras, 2:0, í vináttulandsleik á Flórída í nótt.
Markalaust var í leikhléi áður en Andri Lucas Guðjohnsen og Brynjólfur komust á blað í síðari hálfleik.
„Mér fannst fyrri hálfleikurinn ekki vera meira í eigu Hondúras. Mér fannst við alveg gera þetta fínt og fá fínar sóknir.
Úrslitasendingin, síðasta sendingin þegar við vorum að komast á síðasta þriðjung, var að klikka hjá okkur í fyrri hálfleik. Færin sem þeir fá, þeir voru rosalega mikið að skjóta langt fyrir utan teig fannst mér.
Þeir voru að opna okkur aðeins en svo í seinni hálfleik fannst mér við laga pressuna betur, keyrðum bara óhræddir á þá.
Þá virkaði úrslitasendingin betur og svo kláruðum við færin okkar. Það voru aðeins meiri gæði á síðasta þriðjungi,“ sagði Brynjólfur um muninn á fyrri og síðari hálfleik.
Hann var þá spurður hvernig hafi verið að spila á móti landsliðum frá Mið-Ameríku, Hondúras í nótt og Gvatemala um síðustu helgi.
„Þetta er svolítið öðruvísi. Menn liggja meira í jörðinni og þetta er öðruvísi líkamlega en það er gaman að spila gegn öðruvísi kúltúr,“ sagði Brynjólfur.