Gunnar ráðinn þjálfari KR

Gunnar Einarsson er tekinn við kvennaliði KR.
Gunnar Einarsson er tekinn við kvennaliði KR. Ljósmynd/KR

Knattspyrnudeild KR hefur ráðið Gunnar Einarsson sem aðalþjálfara meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Hann gerði tveggja ára samning við félagið í dag.

Gunnar hefur undanfarna mánuði verið aðstoðarþjálfari Pálma Rafns Pálmasonar með liðið en Pálmi gerðist aðstoðarþjálfari karlaliðsins í gær og lét af störfum hjá kvennaliðinu.

Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður karlaliðsins, verður aðstoðarþjálfari Gunnars meðfram því að spila fyrir félagið.  

Gunnar er 47 ára gamall og lék á sínum tíma 143 leiki í efstu deild með KR, Val og Víkingi ásamt því að leika sem atvinnumaður í Hollandi og á Englandi. Hann hefur þjálfað karlalið Kára í 2. deild og Víkings í Ólafsvík í 1. deild.

KR féll niður í 2. deild kvenna síðasta haust, í fyrsta skipti, ári eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert