Birnir Snær Ingason, besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta 2023, er farinn frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings.
Sænska úrvalsdeildarfélagið Halmstad kynnti Birni til leiks sem nýjan leikmann sinn í dag en hann samdi við félagið til þriggja ára, eða til loka tímabilsins 2026.
Birnir gerist því atvinnumaður 27 ára að aldri en hann á að baki 172 leiki í efstu deild fyrir Víking, HK, Val og Fjölni og hefur skorað 42 mörk. Þar af voru 12 mörk í 25 leikjum fyrir Víking á síðasta tímabili þar sem leikmenn deildarinnar kusu hann besta leikmanninn í mótslok.
Birnir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Gvatemala fyrr í þessum mánuði en hann lék áður þrjá leiki með 21-árs landsliði Íslands.
Halmstad var í fallbaráttu á síðasta tímabili en endaði í 12. sæti af sextán liðum, þremur stigum fyrir ofan umspilssæti deildarinnar.
Sjö íslenskir knattspyrnumenn hafa áður leikið með Halmstad, Eggert Guðmundsson (1982-86), Gunnar Heiðar Þorvaldsson (2004-06), Jónas Guðni Sævarsson (2009-12), Guðjón Baldvinsson (2012-14), Kristinn Steindórsson (2012-14), Höskuldur Gunnlaugsson (2017-18) og Tryggvi Hrafn Haraldsson (2017-18).
Halmstad leikur sinn fyrsta leik á tímabilinu 18. febrúar gegn Helsingborg í bikarkeppninni en liðið á fram undan þrjá bikarleiki áður en keppni í úrvalsdeildinni hefst 1. apríl.