Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur helmingslíkur á því að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson, markahæsti leikmaður í sögu karlalandsliðsins, verði með íslenska liðinu þegar það mætir Ísrael þann 21. mars í Búdapest í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fram fer í Þýskalandi.
Sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleik þann 26. mars en úrslitaleikurinn fer annaðhvort fram í Bosníu eða Úkraínu.
„Það eru helmingslíkur á að bæði Aron Einar og Gylfi Þór verði klárir í slaginn gegn Ísrael,“ sagði Hareide í samtali við Morgunblaðið.
Lykilmenn íslenska liðsins eru allir að standa sig vel með sínum félagsliðum og að spila reglulega.
„Eina óvissan eru Aron og Gylfi en langflestir leikmenn liðsins eru að spila mjög reglulega með sínum félagsliðum sem eru frábærar fréttir fyrir okkur. Þeir eru líka að standa sig vel sem er alltaf plús. Ég hef fylgst mjög náið með leikmönnunum undanfarna mánuði og satt best að segja er ég svo gott sem búinn að stilla upp byrjunarliðinu, fyrir leikinn gegn Ísrael, í hausnum á mér.
Næsta mál á dagskrá er að fara yfir taktík og leikplanið með þeim en þegar allt kemur til alls snýst þetta um hugarfar leikmannanna og hvernig þeir mæta stemmdir til leiks. Við eigum góða möguleika gegn Ísrael og við munum mæta mjög vel undirbúnir til leiks,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í samtali við Morgunblaðið.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.