Knattspyrnukonan Málfríður Erna Sigurðardóttir er gengin til liðs við uppeldisfélag sitt Val.
Ætlar hún að ljúka ferlinum á Hlíðarenda en hún verður fertug á árinu. Málfríður hóf feril sinn með Val árið 2000, er hún var 16 ára gömul.
Lék hún með Val samfleytt til ársins 2014 en gekk svo til liðs við Breiðablik þar sem hún lék í tvö ár. Skipti hún svo aftur yfir í Val, lék þar fjögur ár og skipti svo yfir til Stjörnunnar, þar sem hún hefur leikið undanfarin fjögur tímabil.
Málfríður varð aðeins önnur konan í sögu efstu deildar til að spila 300 leiki í deildinni síðasta sumar. Sandra Sigurðardóttir, markvörður, er sú eina sem á fleiri leiki að baki.
Um leið og Málfríður skrifaði undir eins árs samninginn tilkynnti hún að þetta yrði hennar síðasta tímabil.
Valur hefur unnið Íslandsmótið þrjú ár í röð.