Fram vann Fylki í fimm marka leik

Kennie Chopart og Fred Saraiva fagna marki í gær.
Kennie Chopart og Fred Saraiva fagna marki í gær. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Framarar höfðu betur gegn Fylki, 3:2, í öðrum riðli deildabikars karla í Egilshöllinni í gær. 

Með sigrinum er Fram með jafn mörg stig og Valur í toppsæti riðilsins, eða þrjú. Þá er Fylkir búinn að tapa báðum leikjunum sínum í deildabikarnum. Hin lið riðilsins, ÍBV, ÍR og Þróttur úr Reykjavík eiga enn eftir að leika. 

Framarar voru 2:0-yfir eftir fyrri hálfleikinn þökk sé mörkum frá Breka Baldurssyni og Jannik Pohl. 

Framarinn Sigfús Árni Guðmundsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 50. mínútu og minnkaði í leiðinni muninn fyrir Fylki, 2:1.

Kennie Chopart svaraði aftur á móti fimm mínútum síðar og kom Framörum 3:1-yfir. Mathias Præst Nielsen minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 73. mínútu en nær komu Fylkismenn ekki, 3:2.

Fram mætir næst ÍR á Framvellinum en Fylkismenn mæta ÍBV á Fylkisvellinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert